Naustabryggja og nágrenni

Um hverfið

Spennandi uppbyggingarsvæði í Bryggjuhverfi Reykjavíkur

Bryggjuhverfið er hluti af spennandi uppbyggingarverkefni borgarinnar

Þar sem áður var athafnasvæði Björgunar verður líflegt og mannvænt borgarhverfi í einstaklega góðum tengslum við aðra borgarhluta hvort sem það er til suðurs, vestur eða austurs. Til norðurs er svo einstök nálægð við hafið og fjöruna en við hönnun hverfisins liggja strandir, síki, votlendi og bryggjur til grundvallar. Í skipulagi svæðisins kveður við nýjan tón í íslensku hverfisskipulagi þar sem áhersla á sjálfbærni er í forgrunni og borin er aukin virðing fyrir auðlindum og eignum borgarbúa þar sem land og inniviðir eru nýttir vel.

Í samræmi við markmið Reykjavíkurborgar um kolefnishlutlaust borgarsamfélag tryggja þessar forsendur grundvöll að blómlegri verslun og þjónustu innan hverfis. Íbúar á svæðinu munu njóta góðs af nálægð við eina af aðalstöðvum Borgarlínunnar við Krossmýrartorg. Í heildina er gert ráð fyrir hátt í 6.000 íbúðum á Ártúnshöfðanum þegar fram líða stundir.

Naustabryggja 9 og 11 eru hvort um sig 14 íbúða lyftuhús á fjórum hæðum. Húsin eru vel staðsett innan Bryggjuhverfisins.

Þjónusta og umhverfi

Við Ártúnshöfðann á sér nú stað umfangs- og metnaðarfullt uppbyggingarverkefni Reykjavíkurborgar. Skipulagið byggir á því að hverfið sé sjálfu sér nægt um flesta þjónustu. Í hverfinu öllu er gert ráð fyrir þremur nýjum grunnskólum auk nokkurra leikskóla. Á svæðinu er gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæðum umhverfis Bryggjutorg sem skapar miðpunkt hverfisins. Lögð er á það rík áhersla að hverfið sé vel þjónustað af almenningssamgöngum en Borgarlínan kemur til með að liggja í gegnum Stórhöfða á svæðinu miðju. Þar sem Breiðhöfði mætir Stórhöfðanum verður Krossmýrartorg með einni helstu skiptistöð Borgarlínunnar.

Hverfið býður upp á magnað aðgengi að útiveru umhverfis fjörur, sand, báta og bryggjur. Þá skemmir ekki fyrir að svæðið allt þykir sérstaklega skjólsælt fyrir ríkjandi norðan og suðvestanáttum og góðar göngu- og hjólaleiðir eru í hverfinu til nærliggjandi svæða á borð við Geirsnef og Elliðaárdal. Mikil áhersla er lögð á gróðursetningu borgartrjáa og að hverfið allt hafi grænt yfirbragð en einnig er stefnt að blágrænum ofanvatnslausnum. Gert er ráð fyrir sundlaug í hverfinu.